Sex til átta störf á vegum Innheimtustofnun sveitarfélaga verða flutt til Ísafjarðar. Var þetta samþykkt á stjórnarfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrr í dag. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að störfin verði 6-8 til að byrja með. Þetta kemur fram á vef Bæjarins besta.
Á fundinum var Svandís Svavarsdóttir kjörin varaformaður sambandsins, í stað Árna Þórs Sigurðssonar. Starfshópur sem skipaður var um flutning á Innheimtustofnun sveitarfélaga til Ísafjarðar taldi mögulegt að flytja 6-8 störf til sveitarfélagsins. Hópurinn taldi þó ekki skynsamlegt að flytja stofnunina í heilu lagi þar sem flutningurinn gæti haft neikvæð áhrif á innheimtuárangur stofnunarinnar, samkvæmt frétt Bæjarins besta.
Um er að ræða bókhaldsvinnu og almenn samskipti við meðlagsgreiðendur. Samkvæmt álitinu gæti töluverður hluti af þeirri vinnu sem stofnunin innir af hendi, farið fram hvar sem er á landinu og þyrfti ekki að fara fram í Reykjavík. Meirihluti starfshópsins taldi að vanda beri vel til verka ef af flutningi verður, s.s. með endurskilgreiningu starfa og ítarlegri skoðun á rekstraráhrifum.
Sigurgeir Sigurðsson, formaður stjórnar Innheimtustofnunar taldi þó að ekki væri vænlegt að flytja störf til Ísafjarðar, þar sem það gæti riðlað starfsemi stofnunarinnar verulega og gæti komið niður á innheimtuárangri hennar.