Góð kjörsókn í Þingeyjarsýslu

Góð þátttaka hefur verið í kosningu um sameiningu þriggja sveitarfélaga í Þingeyjarsýslu í dag. Núna klukkan fimm höfðu hátt í 70% kosningabærra manna mætt á kjörstað í Skútustaðahreppi, 80% í Aðaldælahreppi og tæplega 80% í Þingeyjarsveit.

Veður var leiðinlegt á svæðinu eftir hádegið, en þó ekki nándar nærri eins vont og veðurspá gerði ráð fyrir, að sögn Reinhards Reynissonar, verkefnisstjóra.

Kjörstöðum verður lokað kl. 18 og úrslit liggja fyrir síðar í kvöld. Reinhard segir að kjörsókn sé þegar orðin meiri, í öllum sveitarfélögunum þremur, en þegar „stóra kosningin“ fór fram árið 2005. Þá var kosið um sameiningu sjö sveitarfélaga - Skútustaðahrepps, Aðaldælahrepps, Húsavíkurbæjar, Tjörneshrepps, Kelduneshrepps, Öxafjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps. Eftir að sú tillaga var felld var lögð fram önnur um sameiningu Húsavíkur, Kelduhverfis, Öxarfjarðar og Raufarhafnar, og þá varð til sveitarfélagið Norðurþing.

Á síðasta ári voru íbúar sveitarfélaganna þriggja samtals 1366 og hafði þá fækkað um 240 frá 1997. Á fréttavef Vikudags á Akureyri kemur fram að mest hafi fækkunin orðið í yngsta aldurshópnum, eða um 42% á 10 árum. Flestir búa í Þingeyjarsveit, um 700 , íbúar Skútastaðarhrepps eru um 400 og í Aðaldælahreppir búa tæplega 300 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert