Hallar á þá sem sízt skyldi

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í heilsufélagsfræði, segir rannsóknir sínar leiða í ljós, að þrátt fyrir félagslegt heilbrigðiskerfi á Íslandi og öll stjórntækin til að jafna út kostnaðarbyrðar þess sé mikill munur á milli þjóðfélagshópa og halli þar á hópa sem sízt skyldi. Hæst er hlutfall heilbrigðisútgjalda af heimilistekjum hjá tekjulágum, fötluðum og öldruðum og fólki á aldrinum 18-24 ára. Þá er munur á útgjaldabyrði einstaklinga eftir sjúkdómum og eru geðsjúkir þar í hæsta flokki, en krabbameins- og áfengissjúklingar í lægstu útgjaldahópunum.

Rúnar segir að niðurstöður rannsóknanna samrýmist illa réttlætiskennd þjóðarinnar og lögum um heilbrigðisþjónustu og réttindi sjúklinga, sem segja að óheimilt sé að mismuna sjúklingum.

Þegar á heildina er litið eru annir helzta ástæða þess að fólk frestar því að fara til læknis, 60%, en 30% bera við kostnaði. Rúnar segir aðkallandi að vinda ofan af þeirri raunaukningu, sem orðið hefur á útgjöldum einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu. Þessi útgjöld námu 1% af vergri landsframleiðslu 1987, en 1,7% árið 2004.

Kaupmáttaraukningu fólks á sama tíma segir hann hafa vegið þarna upp á móti og því hafi ekki dregið úr aðgengi fólks að heilbrigðiskerfinu. Eftir sem áður hefur útgjaldaaukningin komið við þá, sem ekki hafa notið kaupmáttaraukningar til fulls og telur Rúnar til þess hóps aldraða, atvinnulausa, öryrkja, langveika og láglaunafólk.

Rætt er við Rúnar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert