Íslensk ferðaþjónusta gæti eflst gríðarlega takist henni að opna meira til Grænlands. Þetta segir Baldvin Kristjánsson, sem rekur ferðaþjónustu í Qaqortoq í suðvesturhluta Grænlands.
„Stærsti þjóðgarður í heimi er á Grænlandi og landið er annað stærsta heimskautasvæði heims, á eftir suðurskautinu. Ferðir til Suðurskautslandsins eru gerðar út frá Argentínu og Nýja-Sjálandi. Gríðarlegur fjöldi ferðamanna sækir þangað og ver um og yfir 20 þúsund Bandaríkjadölum til að komast þangað."
Baldvin segir mikilvægt fyrir Grænlendinga að fá ferðamenn frá fleiri löndum en Danmörku. Tækifærin séu mikil, bæði fyrir Grænlendinga og Íslendinga.
„Eina leiðin til að ná Grænlandsþjóðgarðinum, stærsta þjóðgarði í heimi, á norðausturhluta eyjunnar, er í gegnum Ísland, frá Akureyri. Sömuleiðis er hagkvæmasta leiðin til Austur-Grænlands frá Íslandi." Ferðamáladeild Háskólans á Hólum vinnur nú að skipulagningu náms á sviði náttúru- og ævintýratengdrar ferðaþjónustu í Qaqortoq. Unnið er að fjáröflun og námskrá og er stefnt að því að námið geti farið af stað haustið 2008.
Baldvin segir verkefni sem þessi bæði geta komið Grænlendingum og Íslendingum að gagni. Nauðsynlegt sé að leggja aukna áherslu á menntun fyrir Grænlendinga og nóg sé komið af fátækrahjálp. „Grunnskólarnir hér eru mjög lélegir. Tæplega tvö prósent þjóðarinnar sækja sér háskólamenntun. 44 sækja nám í háskólanum í Nuuk, þar með taldir þeir sem læra til kennara og prests. Helmingur þeirra sem sækja sér háskólamenntun í Danmörku snýr ekki aftur heim til Grænlands."
Baldvin segir að á Íslandi sé að mörgu leyti erfitt að útbúa nám í verklegri ferðaþjónustu, kajakferðum, klifri og þess háttar. "Mikill vöxtur hefur verið í þessum geira á síðustu árum, en það hefur ekki skilað sér til Íslands nema að mjög litlu leyti. Hér á Grænlandi eru góðar aðstæður til verklegs náms allt árið um kring. Aðstæður eru betri bæði á fjöllum og á sjó. Hólaverkefnið nýtist bæði Íslendingum og Grænlendingum, þannig að verið er að slá tvær flugur í einu höggi."