Kona á áttræðisaldri sem í fyrra naut akstursþjónustu Reykjavíkurborgar treystir sér ekki til að sækja um hana að nýju. Henni finnst skilmálarnir um þjónustuna ógeðfelldir þótt aksturinn hafi verið henni til mikils gagns. Ólafía Sigríður Guðbergsdóttir neitar að sæta yfirheyrslum eftir ársviðskipti við borgina.
Öryrkjar og aldraðir þurfa að slást við kerfið til að komast leiðar sinnar. Akstursþjónustan þykir góð en er á stífu tímaplani og þótt allir geri sitt besta kemur fyrir að þiggjandinn lendi í hremmingum.
Maður, sem aðeins getur staðið í göngugrind, lenti í því að vera skilinn eftir af því hann beið óvart fyrir utan rangar dyr verslunarkjarna. Hann bjargaði sér heim í leigubíl. Biðin er þó oftar af því fólk hefur ekki þorað annað en að áætla ríflegan tíma.