Nú liggur ljóst fyrir að 34 skepnur sluppu úr brunanum á bænum Stærra-Árskógi í Dalvíkurbyggð í gær, en alls voru rúmlega 200 gripir í húsunum sem brunnu. Megnið af bústofni kúabúsins drapst því en þeim sem lifðu var í morgun komið í hús á bænum Kálfsskinni. Aðkoman var ömurleg, húsin ónýt og dauðar skepnur á víð og dreif í rústunum.
Elstu kvígurnar og geldkýrnar á bænum sluppu en allar mjólkurkýr, yngstu kvígurnar og nautgripir í uppvexti drápust. Tjónið er því gríðarlega mikið að því leyti, auk þess sem öll útihúsin eru ónýt. Óvíst er enn hve fjárhagslegt tjón er mikið, en það hleypur á tugum milljóna króna, jafnel á annað hundruð milljóna.