Hluthafafundi í Reykjavík Energy Invest þar sem rætt er um þátttöku fyrirtækisins í kaupum á sextíu% hlut í Orkuveitu Filippseyja, lauk á sjötta tímanum. Niðurstaða af fundinum er ekki gefin upp og öðrum dagskrárliðum fundarins var frestað fram að framhaldshluthafafundi, sem haldinn verður á föstudag. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Hluthafafundurinn, sem hófst í gær en var svo frestað til dagsins í dag, átti að hefjast klukkan fjögur en seinkaði um rúman klukkutíma þar sem fundur í stjórn REI stóð lengur en gert var ráð fyrir.
Aðalumræðuefnið á fundinum var þátttaka REI í kaupum á hlut í Orkuveitu Filippseyja, í samvinnu við Geysi Green Energy og orkufyrirtækið First Gen á Filippseyjum.
Í fréttum RÚV kom fram að hluthafar eru bundnir trúnaði af niðurstöðu hans og því fæst ekkert uppgefið um hana fyrr en í fyrsta lagi þegar tilboði hefur verið skilað, en frestur til þess rennur út á miðvikudagsmorgun.