Eigandi Torrent yfirheyrður

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum myndrétthafa á Íslandi, SMÁÍS, var eigandi Torrent.is, Svavar Lúthersson, fluttur til yfirheyrslu af lögreglu í morgun. Ekki hefur náðst í lögfræðing SMÁÍS út af málinu.

Undanfarið hafa birst fréttir af því að íslenskri tónlist sé dreift á ólögmætan hátt með aðstoð vefsetursins Torrent.is. Þannig óskaði Páll Óskar Hjálmtýsson eftir því að plata hans yrði ekki lengur aðgengileg í gegnum Torrent.is, en torrent-skrá sem vísaði á hana hafði þá verið aðgengileg í gegnum vefsetrið í einhvern tíma.

Dreifing á efni með torrent-tækni byggist á því að sá sem vill sækja efnið sækir skrá, til að mynda til Torrent.is, sem inniheldur slóðina á deilitölvu eða "tracker", skráaheiti og aðrar upplýsingar um viðkomandi skrá. Yfirleitt nota menn síðan sérstakan hugbúnað til þess að sækja skrána eða skrárnar og sækja hana þá iðulega á margar tölvur í einu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert