Fékk tundurdufl í veiðarfærin

Tundurduflið tilbúið til flutnings.
Tundurduflið tilbúið til flutnings. mynd/Sigurður Ásgrímsson

Togskipið Þorvarður Lárusson SH frá Grundarfirði, sem áður hét Smáey, hafði á laugardagsmorgun samband við Vaktstöð siglinga og sagðist vera á togveiðum undan Látrabjargi og hafa fengið stóra álkúlu í veiðarfærin sem væri um 1,20 m í þvermál.

Vaktstöð siglinga kom skipstjóra skipsins í samband við sprengjusérfræðing Landhelgisgæslunnar og eftir lýsingum hans á duflinu var enginn vafi talinn á að um væri að ræða þýskt tundurdufl en þeim var meðal annars lagt út við Látrabjarg til að trufla ferðir skipalesta á leið til Murmansk, í seinni heimstyrjöld.

Óskað var eftir að skipið kæmi strax að landi og var ákveðið að það kæmi til hafnar á Rifi. Haft var samband við lögreglu og hafnarstjóra.  Björgunarbátur á staðnum var fenginn til að flytja sprengjusérfræðinga um borð í skipið en það reyndist ógerlegt vegna veðurs. Ekki reyndist heldur mögulegt að gera duflið óvirkt um borð og var það því flutt á afvikinn stað og sprengt.  Sprengiefnið úr duflinu reyndist vel virkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert