Bandarískir ráðamenn þrýsta á flugvélaframleiðandann Boeing um að stunda ekki viðskipti við Icelandair Group vegna Kúbuferða íslenska fyrirtækisins. Stjórnvöldum vestanhafs er illa við að Boeing vélar séu notaðar til að fljúga til og frá Kúbu, þar sem að Bandaríkjamenn hafa haldið uppi viðskiptabanni við Kúbu í áratugi.
DV greinir frá því í dag að um sé ræða leiguflug í nafni Loftleiða, dótturfélags Icelandair, sem í tæpt ár flaug Boeing-vélum til og frá Kúbu samkvæmt samningi. Leiguflugfélagið Air Atlanta Icelandic hefur einnig gert út bandarískar flugvélar frá Kúbu og bandarísk stjórnvöld hafa einnig fett fingur út í þá starfsemi. Að því er DV greinir frá hafa bæði flugfélögin rétt til að fljúga til Kúbu en bandarísk stjórnvöld vilja ekki að það sé gert með bandarískum flugvélum, samkvæmt frétt DV.