Eigandi snáksins sem fannst við húsleit á Egilsstöðum er mjög ósáttur við reglur á Íslandi sem leggja bann við því að snákar séu hafðir sem gæludýr. Íhugar Kristófer Leifsson, fyrrum snákaeigandi, að flytja til Danmerkur í þeim eina tilgangi að geta átt snák sem gæludýr.
Við húsleit lögreglunnar í íbúð á Egilsstöðum um helgina fannst m.a. svokallaður cornsnákur. Var snákurinn aflífaður og mun fulltrúi heilbrigðiseftirlits annast eyðingu á hræinu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
„Því miður ólöglegt að eiga snáka sem gæludýr," segir Kristófer í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Segir hann cornsnáka mjög þægilega í umgengni, þeir séu tannlausir og ekki eitraðir.
Kristófer var búinn að eiga snákinn í um tvö ár en hann keypti hann á Íslandi á netinu. Hann staðfestir að snákar gangi kaupum og sölum hér á landi en það hafi að vísu verið talsvert mál að fá snákinn keyptan, „en hvað leggur maður ekki á sig fyrir gott gæludýr," segir Kristófer.
Kristófer segist eiga von á ákæru fyrir ólöglega dýraeign en einhver lét lögreglu vita af snáknum á heimili Kristófers.