Lögbannskrafa tekin til greina og Torrent vefnum lokað

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði hefur fallist á kröfu um lögbann gegn vefsíðunni Torrent.is og hefur síðunni verið lokað, að sögn Snæbjörns Steingrímssonar, framkvæmdastjóra Samtaka myndrétthafa á Íslandi (SMÁÍS). Að sögn Snæbjörns lokaði eigandi Torrent, Svavar Lúthersson, sjálfur síðunni en honum var gefinn klukkustund til þess og að öðrum kosti hefði lögregla lokað vefnum.

Þeir sem standa að lögbannsbeiðninni eru SMÁÍS, SÍK (Framleiðendafélagið), STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) og FHF (Félag hljómplötuframleiðenda). Þessi sömu rétthafasamtök höfðu áður lagt fram opinbera kæru gegn eiganda síðunnar, Svavari Lúthersyni, en þar sem ekkert hafði verið aðhafst að hálfu yfirvalda í yfir 8 mánuði síðan kæran var lögð inn sáu rétthafasamtökin sér engan annan kost en að höfða einkamál og fara fram á lögbann gegn þessari síðu, samkvæmt upplýsingum frá SMÁÍS.

Að sögn Snæbjörns lögðu lögbannsbeiðendur fram tryggingu fyrir lögbannsbeiðninni og munu síðar í vikunni höfða staðfestingarmál fyrir héraðsdómi.

„Það er okkar álit að eigandi www.torrent.is sé sekur um stórfeld hlutdeildarbrot með dreifingu á efni varið höfundarrétti sem fer um istorrent í óþökk rétthafa," segir í tilkynningu frá SMÁÍS.

Undanfarið hafa birst fréttir af því að íslenskri tónlist sé dreift á ólögmætan hátt með aðstoð vefsetursins Torrent.is. Þannig óskaði Páll Óskar Hjálmtýsson eftir því að plata hans yrði ekki lengur aðgengileg í gegnum Torrent.is, en torrent-skrá sem vísaði á hana hafði þá verið aðgengileg í gegnum vefsetrið í einhvern tíma.

Dreifing á efni með torrent-tækni byggist á því að sá sem vill sækja efnið sækir skrá, til að mynda til Torrent.is, sem inniheldur slóðina á deilitölvu eða "tracker", skráaheiti og aðrar upplýsingar um viðkomandi skrá. Yfirleitt nota menn síðan sérstakan hugbúnað til þess að sækja skrána eða skrárnar og sækja hana þá iðulega á margar tölvur í einu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka