Minna utan af þorskflökum

mbl.is/Brynjar Gauti

Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur útflutningur ferskra þorskflaka dregizt saman um 30% eða um tæp 2.600 tonn miðað við sama tíma í fyrra. Þótt 18% verðhækkun hafi orðið á milli ára er útflutningsverðmæti nú nálægt 1,1 milljarði lægra en í fyrra, en í lok september síðastliðins hafði árið skilað um 5,3 milljörðum.

Mest var flutt út til Bretlands, 2.748 tonn, sem er þriðjungi minna en í fyrra, til Belgíu voru flutt 1.550 tonn, -16%, til Frakklands 888 tonn, -20%, og í fjórða sæti voru Bandaríkin sem keyptu af okkur 276 tonn, sem er aðeins þriðjungur þess magns sem þangað var flutt á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

„Bandaríkjamarkaður var stór markaður fyrir fersk þorskflök. Gengi dollars gagnvart pundi og evru og hækkandi hráefnisverð vegna niðurskurðar þorskkvótans hefur hreinlega gert útflutning á flökum til Bandaríkjanna ómögulegan,“ segir Jan Thomsen, eigandi Danica, sem flytur út mikið af fiski.

Hann segir að framboðið hafi farið minnkandi vegna kvótaniðurskurðarins og eftirspurnin í Evrópu sé svo mikil að menn hugsi nær eingöngu um þann markað nú. Hann segir að útflutningur á ferskum flökum til Evrópu hafi einnig dregizt saman, en hugsanlega hafi útflutningur á óunnum fiski í gámum aukizt í kjölfar afnáms útflutningsálags á gámafiskinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert