Veitingamaðurinn á Tropical Sunrise á Stórhöfða hefur verið kærður fyrir að selja unglingum áfengi en um helgina réðst lögreglan til inngöngu á staðinn. Staðurinn er bannaður innan 18 ára en þegar lögreglumenn fóru inn kom í ljós að átta unglingar yngri en 18 ára voru þar undir áhrifum áfengis og sögðust hafa keypt vínið á staðnum.
Grunur hafði verið uppi um að unglingar fengju afgreiðslu á barnum og því sendi lögreglan fjölmenna sveit á staðinn. Húsinu var lokað og þess gætt að enginn kæmist út eða inn. Slökkt var á tónlist og ljós kveikt. Því næst voru nöfn starfsfólks tekin niður og aldur gestanna kannaður.
Um 150 manns voru innandyra og þar af átta þeirra of ungir. Hringt var í foreldra þeirra. Brotin varða við lög um veitingahús og áfengislög og er málið í rannsókn.