Stórum hluta af einni stærstu geitahjörð landsins verður slátrað í dag. Vísindamenn telja þetta mikla blóðtöku fyrir geitastofninn og að mikilvægur erfðafjölbreytileiki kunni að glatast. Geitfjárstofninn er sagður einstakur landnámsstofn í bráðri útrýmingarhættu.
„Ég er búin að hafa geiturnar í rúm þrjátíu ár. En lífið er nú einu sinni svona,“ sagði Ásdís Sveinbjörnsdóttir á Hofsósi þegar hún beið eftir flutningabílnum sem flutti geiturnar í sláturhúsið. Hún var með geitféð á Ljótsstöðum en missti aðstöðuna.
Í landinu eru rétt rúmlega 400 vetrarfóðraðar geitur. Þar af voru 55 á Ljótsstöðum eða um 13% af stofninum. Þegar fréttist af aðstæðum Ásdísar gengu Geitfjárræktarfélag Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og erfðanefnd landbúnaðarins í það að reyna að bjarga hluta geitanna. Bóndi annars staðar í Skagafirði var tilbúinn að taka tíu huðnukið, en til þess kom ekki vegna þess að héraðsdýralæknir heimilaði ekki flutninginn vegna varna gegn riðu.