Kýrnar hafðar inni allt árið

Vélmenni leysa nú æ fleiri bændur af hólmi við mjaltir og fjarstýring eykst. Róbót, mjaltaþjónn eða mjaltari eru orð sem notuð eru yfir búnaðinn. Fjárfestingin er dýr og bændasamtökin reikna með því að sextíu mjólkandi kýr séu lágmarksrekstrareining fyrir hvern róbót. Hundrað slíkar einingar eru í rekstri hér á landi og segja samtökin Íslendinga fljótari til en flestar aðrar þjóðir að taka þessa tækni í notkun. Í sumum löndum er hún ekki nýtt.

Sá galli fylgdi róbótavæðingunni að á mörgum bæjum hættu menn að reka kýrnar á beit. Sums staðar voru þær jafnvel alls ekki settar út. Með róbót er hægt að fylgjast með efnasamsetningu mjólkur, hvaða kýr koma til mjalta, mjólkinni sem kemur úr hverjum spena og flestu sem máli skiptir innan úr bæ eða langt að. Kýrnar geta svo glaðst yfir því að mjaltakonan er alltaf tiltæk. Ekki þarf annað en að fara í röðina og fá fóðurbæti í verðlaun fyrir að hafa mætt í róbótinn.

Bóndi sem 24 stundir ræddu við telur kúnum líða betur eftir en áður, þótt þær séu alltaf inni. Þeim finnist gott að láta mjólka sig oftar en einu til tvisvar sinnum á dag. Ekki verði heldur séð að þær sakni útivistarinnar, enda séu kýr ekki sérstakir náttúruunnendur. Þessu eru dýraverndunarsamtök algjörlega ósammála, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert