Truflun í orkuframleiðslu Sigölduvirkjunar leiddi til þess að 245 kV flutningskerfi Landsnets á Austurlandi rofnaði frá meginkerfinu og varð álver Alcoa Fjarðaráls á Reyðarfirði straumlaust í rúman hálftíma í gærkvöldi sem og álver Norðuráls á Grundartanga. Truflunin varð um klukkan 19 og síðan mun hafa tekið einhverja klukkustund til viðbótar til að stilla tæki af á nýjan leik og keyra upp straum í álverunum.
„Það er ekki að fullu vitað hvað gerðist, við erum að greina vandann núna," sagði Nils Gústavsson deildarstjóri hjá Landsneti sem sér um að flytja orkuna sem orkuframleiðendur sjá þeim fyrir.
Hjá Alcoa fengust þær upplýsingar að truflunin hafi ekki valdið neinu tjóni fyrir utan framleiðslustöðvunina.