Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað beiðni Lúðvíks Gizurarsonar um opinber skipti á dánarbúi Hermanns Jónassonar. Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins. Hæstiréttur úrskurðaði í mars að heimilt væri að bera saman lífsýni úr Hermanni Jónassyni og Lúðvík og sú rannsókn leiddi í ljós að Lúðvík væri sonur Hermanns.
Héraðsdómur úrskurðaði í september á grundvelli niðurstöðunnar að Hermann væri faðir Lúðvíks. Í nóvemberbyrjun fór Lúðvík fram á það við sýslumanninn í Reykjavík að gerð yrðu opinber skipti á dánarbúi Hermanns. Héraðsdómur úrskurðaði um málið fyrir rúmri viku og vísar m.a. til þess að í lögum segi, að sá sem telji að gengið hafi verið fram hjá sér við skipti dánarbús verði að gera kröfu innan tíu ára frá lokum skiptanna.
Útvarpið hafði eftir Lúðvík, að hann væri ekki búinn að gera það upp við sig hvort hann áfrýi úrskurðinum til Hæstaréttar.