Þyrlan var hætt komin þegar Wilson Muuga strandaði

Þyrla Landhelgisgæslunnar á sveimi yfir Wilson Muuga á strandstað
Þyrla Landhelgisgæslunnar á sveimi yfir Wilson Muuga á strandstað mbl.is/ÞÖK

Bókin Útkall. Þyrluna strax! fjallar um strand kýpverska flutningaskipsins Wilson Muuga suður af Sandgerði í desember í fyrra.

Bókin er fjórtánda bók Óttars Sveinssonar í röð svokallaðra „útkallsbóka“ hans, en sú fyrsta kom út árið 1994.

Aðstæður á strandstað voru mjög erfiðar þessa desembernótt, en mikið afrek vannst þegar áhöfnin á TF-LÍF bjargaði sjö mönnum úr áhöfn danska varðskipsins Triton.

Landhelgisgæslan bað skipherra Triton að sigla og kanna aðstæður á vettvangi, þar sem það var statt nærri.

Átta danskir varðmenn voru sendir út á gúmbát til að koma dælum í Wilson Muuga, en veður versnaði og þeir lentu í ógöngum. Björgunarmenn TF-LÍF sýndu mikið hugrekki er þeir björguðu sjö skipverjanna úr átta metra háum öldunum. Einn Dananna drukknaði.

Mikil dramatík

Óttar byggir bókina á því sem gerðist á stranddaginn og afleiðingum þess og í bókinni eru fyrstu viðtölin sem tekin eru við Danina að hans sögn.

„Ég hef ekki skrifað meiri dramatík frá því ég skrifaði um Suðurlandið,“ segir Óttar og vísar til bókarinnar Útkall í Atlantshafi á jólanótt, sem fjallar um það þegar flutningaskipið Suðurland sökk.

„TF-LÍF stóð mjög tæpt, nokkuð sem aldrei hefur komið fram, og Danirnir voru veiddir upp úr átta metra háum öldum í myrkri og kulda eftir að hafa barist þar í um tvær klukkustundir,“ segir Óttar.

Hann segir að það hafi verið erfitt fyrir Danina að rifja upp atburðina og að mikið hafi verið grátið.

„Sumir þeirra urðu óvinnufærir eftir lífsreynsluna, en aðrir héldu áfram að sigla,“ segir Óttar.

Hann er á förum til Danmerkur til að vinna að útgáfumálum og segist hafa fundið fyrir miklum áhuga þaðan, þar sem sagan sé ekki síður dönsk en íslensk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka