Vill nýtt starfsheiti fyrir ráðherra

Konur á ráðherrabekkjum eru herrar en því vill Steinunn Valdís …
Konur á ráðherrabekkjum eru herrar en því vill Steinunn Valdís breyta. mbl.is/Sverrir

Stein­unn Val­dís Óskars­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, hef­ur lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu á Alþingi um að rík­is­stjórn­inni verði falið að und­ir­búa breyt­ing­ar á stjórn­ar­skrá og lög­um til að taka megi upp nýtt starfs­heiti ráðherra sem bæði kyn­in geta borið. Stein­unn Val­dís ger­ir ekki til­lögu að starfs­heiti en seg­ir að leita mætti eft­ir til­lög­um, t.d. hjá Íslenskri mál­nefnd og heim­speki­deild Há­skóla Íslands.

Stein­unn Val­dís seg­ir í grein­ar­gerð með til­lög­unni, að sú þróun hafi átt sér stað í hefðbundn­um kvenna­stétt­um þegar karl­ar hafi haslað sér þar völl, að starfs­heit­um hafi verið breytt til þess að bæði kyn­in geti borið þau. Þannig hafi hjúkr­un­ar­kon­ur orðið að hjúkr­un­ar­fræðing­um, fóstr­ur að leik­skóla­kenn­ur­um og Fóstru­skóla Íslands verið breytt í Fóst­ur­skóla Íslands, m.a. af til­lits­semi við karla því að ekki þótti boðlegt fyr­ir karl­menn að vera kven­kennd­ir. Um eðli­lega og sjálf­sagða leiðrétt­ingu hafi verið að ræða.

„Ef orðin ráðherra og sendi­herra væru t.d. „ráðfrú“ og „sendifrú“ hefði ef­laust einnig þótt sjálfsagt að breyta starfs­heit­inu um leið og fyrsti karl­maður­inn tók að sér slíkt embætti. Það er því í fyllsta sam­ræmi við þessa þróun að breyta einnig starfs­heit­um í hefðbundn­um karla­stétt­um, þannig að kon­ur geti borið þau. Ráðherra­embætti eiga ekki að vera eyrna­merkt körl­um," seg­ir í grein­ar­gerðinni.

Stein­unn Val­dís seg­ir, að það særi ekki mál­kennd manna þótt kon­ur séu for­set­ar, kenn­ar­ar eða for­stjór­ar en öðru máli gegni um orðið „herra“. „Það stríðir ekki ein­ung­is gegn mál­vit­und okk­ar að kona sé herra, held­ur er það merk­ing­ar­lega úti­lokað að kona sé herra á sama hátt og karl get­ur ekki verið frú. Orðið herra merk­ir tvennt sam­kvæmt ís­lenskri orðabók, ann­ars veg­ar titil karl­manns og hins veg­ar hús­bónda eða yf­ir­mann og ljóst er að síðar­nefnda merk­ing­in er frá þeim tíma þegar aðeins karl­ar gegndu slík­um stöðum. Það er því mikið rétt­læt­is­mál að þess­um starfs­heit­um verði breytt. Sömu rök eiga við um stöðuheit­in sendi­herra og skip­herra sem vænt­an­lega eru einnig form­lega opin fyr­ir kon­ur."

Stein­unn Val­dís seg­ir að aðal­atriðið sé að nota orð sem hent­ar báðum kynj­um. Á Íslandi finn­ist ótal dæmi um snilld­ar­lega ný­smíði orða. Vel kæmi einnig til greina að fram færi vel aug­lýst sam­keppni um verðugt orð yfir þessi mik­il­vægu embætti þjóðar­inn­ar, sem kon­ur hljóti að gegna í æ rík­ari mæli á kom­andi árum.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert