Ýmislegt í EES-samningnum endurspeglar ekki þróun síðustu ára

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Sverrir

Fram kom á Alþingi í dag, að ýmislegt í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið endurspegli ekki breytingar, sem orðið hafa innan Evrópusambandsins á síðustu árum. Hins vegar komu einnig fram efasemdir um að það gæti orðið tvíbent, að taka upp samninginn í viðræðum við Evrópusambandið í ljósi þess hve ESB-stoð samningsins er öflug.

Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, hóf máls á þessu við upphaf þingfundar í dag í tilefni af ummælum Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og formanns þingmannanefndar EES, í útvarpsviðtali, um að endurskoða þurfi EES samninginn svo Ísland komi meira að ákvörðunum ESB sem lögfestar eru hér á landi. Spurði Valgerður hvort eitthvað nýtt hefði gerst frá því í byrjun áratugarins þegar svipuð sjónarmið komu fram hjá Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi utanríkisráðherra.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði að EES-samningurinn væri orðinn 15 ára gamall, og ýmislegt í honum endurspeglaði ekki breytingar innan Evrópusambandsins. Ekki væri hins vegar að sjá, að pólitískur vilji sé innan ESB um að taka EES-samninginn upp með neinum hætti. Sú hefði verið niðurstaðan árið 2003 og ólíklegt væri, að það hafi breyst. Það gæti einnig verið tvíbent, að taka upp tveggja stoða samning þegar í annarri stoðinni væru 27 ríki. „Það geta komið súr ber með þeim sætu," sagði Þórunn.

Katrín Júlíusdóttir sagði, að það hefði verið niðurstaða skýrslu, sem hún vann ásamt þingmanni Evrópusambandsins, að erfiðara væri að eiga við EES-samninginn nú en áður. Þá væri Evrópuþingið orðin helsta valdastofnun ESB en samskipti Íslands væru aðallega við framkvæmdastjórnina. Þess vegna hlytu Íslendingar að spyrja hvernig hægt væri að auka áhrif þeirra á ákvarðanatöku innan ESB.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að EES-samningurinn hafi þjónað hagsmunum Íslendinga vel og engir mikilvægir hagsmunir hefðu glatast Þá mætti ekki gleyma því, að þessi samningur jafngilti ekki aðild Íslendinga að ESB.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert