Tveir Íslendingar áttu þátt í því að bandarískur bílasali var dæmdur í fimm ára fangelsi m.a. fyrir fjársvik og aðra pretti. Íslendingarnir tveir höfðu pantað 11 bifreiðar frá bílasalanum Terry Timmerman. Þegar bílarnir skiluðu sér ekki til Íslands höfðu Íslendingarnir samband við bandarísku alríkislögregluna (FBI) sem hóf að rannsaka málið.
Fram kemur í bandarískum fjölmiðlum að Timmerman, sem seldi notaða bíla, hafi lifað hinu ljúfa lífi með eiginkonu sinni og viðhaldi. Þá segir að hann hafi haft efni á þessum lífstíl með peningum sem íslenskir viðskiptavinir sendu honum vegna bílakaupanna.
Timmerman var í gær dæmdur í fimm ára og þriggja mánaða fangelsi. Hann hafði áður viðurkennt að hafa stolið 765.000 dölum (um 47 milljónir íslenskra kr.) frá íslenskum viðskiptavinum sínum á milli janúar og apríl á þessu ári. Timmerman hlaut þyngsta mögulega dóm þar sem í ljós kom að hann hélt áfram að svikum sínum eftir að hann hafði verið handtekinn.
Skuldar enn rúma 570.000 dali
Bílasalinn, sem hafði rekið bílasölu í Chesapeake frá því í janúar 2006, viðurkenndi í ágúst sl. að hann hafi gerst sekur um fjársvik og flutt fé með ólögmætum hætti. Hann hafði komið ár sinni fyrir borð á Íslandi og keyptu Íslendingar helst dýrari gerðir af fólksbílum og jeppum af honum.
Þegar Timmerman komst að því að bandaríska alríkislögreglan væri hafin að rannsaka málið hóf hann að greiða viðskiptavinum það sem hann skuldaði þeim. Hann skuldaði þó viðskiptavinum sínum rúma 570.000 dali þegar hann var handtekinn. Dómarinn skipaði honum hinsvegar að endurgreiða allt féð að afplánun lokinni.