Með nýlegu frumvarpi til laga um meðferð sakamála leggur Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, til að leidd verði í lög heimild til að koma búnaði fyrir í bifreiðum, fatnaði og töskum einstaklinga til að auðvelda lögreglu að fylgjast með og veita þeim eftirför. Til að beita slíkum aðgerðum þarf þó annað hvort úrskurð dómara eða samþykki viðkomandi einstaklings.
Í athugasemdum með frumvarpinu segir að aðgerðir þessar feli í sér óvenjumikla skerðingu á friðhelgi einkalífs þeirra sem þær beinast að enda verði hægt að fylgjast með daglegum athöfum fólks á heimilum þess. Auknar heimildir eru rökstuddar með því að „mikilvægt [sé], ekki síst þegar um er að ræða hryðjuverk eða meiri háttar fíkniefnabrot, að lögregla geti aflað upplýsinga með þessum hætti."
Hörður Helgason, héraðsdómslögmaður, segir í sjálfu sér ekki um mikla breytingu að ræða, enda hafi lögreglan nú þegar heimild til að fylgjast með einstaklingum og veita þeim eftirför. „Ég spyr mig þó hversu langt stjórnvöld ætli að ganga í því að skerða frelsi hins almenna borgara í stríði þeirra gegn fíkniefnum. Stjórnvöld hafa árum saman háð þetta stríð án mikils árangurs, og þurfa að spyrja sig hvort mögulega væri hægt að ná meiri árangri með minni bönnum."