Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir að mun meira sé byggt bæði af íbúðahúsnæði og atvinnuhúsnæði heldur en langtímaspár gerðu ráð fyrir á sínum tíma. Þar skipti miklu þær breytingar sem orðið hafa á íbúðalánamarkaði. Þetta kom fram í máli borgarstjóra á ráðstefnu Kaupþings um fasteignamarkaðinn.
Dagur vísaði til orða Gísla Marteins Baldurssonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að ekki væri þörf á að byggja upp Geldingarnesið fyrr en eftir árið 2018. Að sögn Dags er þetta annað en áður var talið og áframhaldandi uppbygging í borginni verði að skoðast gaumgæfilega. Dagur segir að það séu stórir hópar í samfélaginu sem þenslan hefur skilið eftir. Þeim sem lakast standa. Um 1.600 manns eru á biðlistum eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögunum. 70% eru með mánaðartekjur undir 150 þúsund krónum. Grunnfjárháð húsaleigubóta hefur staðið í stað frá árinu 1993. Reykjavík eina sveitarfélagið þar sem biðlistar eftir félagslegu húsnæði hefur styst frá árinu 2003. Fá sveitarfélög hyggjast byggja félagslegar íbúðir á næstunni. Dagur segir að það sé ekki einungis þeir sem eru með lægstu tekjurnar sem eru í vandræðum með að koma sér upp húsnæði því staðan sé svipuð hjá ungu fólki sem er að reyna að eignast sína fyrstu íbúð.
Að sögn Dags er leigumarkaður heldur ekki neitt til að hrópa húrra yfir og segir hann það umhugsunarvert hvers vegna leiguverð í Reykjavík er orðið hærra heldur en í þeim hagvaxtarborgum sem við viljum bera okkur saman við. Dagur segir að ekki sé til nein ein lausn á þeim erfiðleikum sem ríkja á fasteignamarkaði. Nýr meirihluti í Reykjavík ætli hins vegar að takast á við þetta vandamál og setja það í forgang.