Framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng komnar á gott skrið eftir tafir

Eins og sést á þessari mynd var vatnslekinn talsverður. Myndin …
Eins og sést á þessari mynd var vatnslekinn talsverður. Myndin er fengin af vef Háfells.

Vinna við gerð Héðinsfjarðarganga gengur vel þessa dagana en miklar tafir hafa hinsvegar orðið vegna mikils vatnsaga í berginu Ólafsfjarðarmegin. Að sögn framkvæmdaraðila láku um 200 sekúndulítrar úr berginu þegar mest var og fór umtalsverður tími í þéttiaðgerðir. Siglufjarðarmegin hafa framkvæmdirnar gengið betur fyrir sig.

Guðmundur Björnsson, verkefnisstjóri Háfells ehf. og Metrostav, sagði í samtali við mbl.is að borframkvæmdir hafi tafist vegna vatnslekans. Neyðst hafi verið að fara í tímafrekar og dýrar aðgerðir til þess að þétta bergið. „Eftir mikið basl náðum við kannski að sprengja um þrjá metra og svo byrjaði sagan aftur. Við þurftum eiginlega að búa til regnhlíf í kringum okkur,“ sagði hann.

Guðmundur bendir á til samanburðar að ef allt gangi samkvæmt áætlun nái þeir að bora um fimm metra inn í bergið og í framhaldinu sé sprengt. Grjótið sé hreinsað og í sama ferli hefst á nýjan leik. „Þetta er búið að tefja okkur heilmikið Ólafsfjarðarmegin,“ sagði hann og bætti við að ástandið hafi verið viðvarandi frá septemberlokum og framundir sl. mánaðarmót.

Komnir á beinu brautina

„Við erum komnir á beinu brautina núna og menn eru bjartsýnir,“ sagði Guðmundur og bættir því við að nóvember stefni í að verða góður mánuður.

Búið er að bora um 1.930 metra leið Ólafsfjarðarmegin af um 3,7 km leið. Siglufjarðarmegin eiga göngin á vera 6,9 km og alls verða því Héðinsfjarðargöng um 11 km löng.

Guðmundur segir aðspurður að stefnt sé að því að búið verði að bora um 2.200 metra Ólafsfjarðarmegin og 3.000 metra Siglufjarðarmegin fyrir áramót.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert