Hæstiréttur hefur dæmt erfðaskrá tveggja systra, sem arfleiddu systurson sinn að eignum sínum, gilda. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður fallist á kröfu annarra ættingja systranna um að erfðaskráin skyldi dæmd ógild á þeirri forsendu, að önnur systirin hefði verið komin með Alzheimers sjúkdóm þegar erfðaskráin var gerð.
Systurnar tvær, sem voru ógiftar og barnlausar, gerðu sameiginlega erfðaskrá árið 2001 og arfleiddu systurson sinn að öllum eigum sínum. Þær höfðu 24 árum áður einnig gert sameiginlega erfðaskrá og samkvæmt henni skyldi sú þeirra, er lengur lifði, erfa hina.
Önnur systirin lést árið 2003 og hin í ársbyrjun 2005. Þriðja systirin, sem lést í ágúst 2005, eignaðist sex börn og var einn sonur hennar einkaerfingi systranna tveggja samkvæmt síðari erfðaskránni. Tvö systkini hans höfðuðu hins vegar mál til ógildingar erfðaskránni.
Hæstiréttur segir, að vilji arfleifenda vegi þungt við mat á því hvort ógilda ætti erfðaskrá. Mörg vitni hefðu borið um náin tengsl systursonarins við systurnar tvær og renndi sá framburður eindregnum stoðum undir það, að erfðaskráin frá 2001 hefði verið í samræmi við vilja, sem systurnar lýstu meðan þær voru báðar enn heilar heilsu.
Þá vísar Hæstiréttur einnig til framburðar öldrunarlæknis, sem talinn var frekar benda til þess, að sú systirin, sem þjáðist af öldrunarhrörnunarsjúkdómnum, hefði gert sér grein fyrir því sem hún var að gera við undirritun erfðaskrárinnar árið 2001.