Íslenska tilboðið það hæsta í filippseyska orkufyrirtækið

Íslensk orkufyrirtæki áttu hlut í hæsta tilboðinu í jarðhitafélag á …
Íslensk orkufyrirtæki áttu hlut í hæsta tilboðinu í jarðhitafélag á Filippseyjum. mbl.is/G. Rúnar

Tilboð sem Geysir Green Energy og Reykjavik Energy Invest stóðu að ásamt filippseyska félaginu First Gen Corp. í filippseyska orkufélagið PNOC Energy Development, var það hæsta sem barst, að sögn þarlendra stjórnvalda. Hljóðaði tilboðið, sem var í 60% hlut ríkissjóðs Filippseyja, upp á 58,5 milljarða pesóa, jafnvirði tæplega 85 milljarða króna, en lágmarksverð ríkisins var rúmir 45 milljarðar pesóa.

„Við trúum á þetta fyrirtæki," hefur blaðið Manila Times eftir Francis Giles Puno, aðstoðarforstjóra og fjármálastjóra First Gen. „Við erum afar ánægðir með að hafa náð þessum áfanga."

Að sögn fréttaveitunnar Thomson bárust þrjú önnur tilboð í orkufélagið. Næsthæsta tilboðið var frá FDC Geo-Energy Holdings Inc. sem fjárfestingarfelagið Filinvest Development Corp. fór fyrir. Það tilboð hljóðaði upp á 48,5 milljarða pesóa. Tilboð frá Panasia Energy hljóðaði upp á 39 milljarða pesóa en lægsta tilboðið barst frá Aboitiz Power Corp og Mighty River Power, 33,165 milljarðar pesóa.

Tilboð GGE, REI og First Gen var lagt fram undir nafninu Red Vulcan. First Gen er í eigu First Philippine Holdings Corp, eignarhaldsfélags fjölskyldu sem hefur fjárfest í orkuvinnslu og byggingariðnaði og á einnig hlut í fjölmiðlum og orkudreifingarfyrirtæki.

Thomson hefur eftir Antonio Cailao, forstjóra filippseyska ríkisolíufélagsins, móðurfélags PNOC-EDC, að tilkynnt verði á morgun hvort tilboði Red Vulkan verði tekið eftir að farið hefur verið yfir tilboðsgögnin. Ekki hefur verið upplýst hver hlutur íslensku fyrirtækjanna er í tilboði Red Vulcan.

Cailao segir við Manila Times, að salan sé á heppilegum tíma fyrir stjórnvöld á Filippseyjum í ljósi mikils áhuga fjárfesta og ólíklegt er að jafn hátt verð myndi fást fyrir fyrirtækið síðar.

Blaðið segir, að PNOC-EDC sé annað stærsta fyrirtæki af þessu tagi í heimi og framleiðslugetan sé 1150 megavött.

Hafliði Helgason, talsmaður Reykjavik Energy Invest, segir búast megi við því að það liggi fyrir í nótt að íslenskum tíma hvaða tilboði verði tekið. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um tilboðið þar sem það væri ekki heimilt á þessari stundu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert