Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í 2 mánaða fangelsi fyrir að hafa sært blygðunarsemi 17 ára unglings, sem tengdist honum fjölskylduböndum, með því að viðhafa kynferðisleg og klámfengin ummæli í tölvusamskiptum á spjallrásinni MSN á netinu. <p>Maðurinn var fundinn sekur um að hafa ítrekað lýst í tölvusamskiptunum yfir vilja sínum til að hafa kynferðismök við piltinn og með hvaða hætti hann vildi hafa þau.
Í niðurstöðu dómsins segir, að ummælin, sem maðurinn lét falla í netspjallinu, séu í alla staði ófyrirleitin og mjög gróf. Þá liggi það fyrir að maðurinn þekkti piltinn frá því hann var einungis barn að aldri. Sé engum vafa undirorpið, að þær lýsingar sem maðurinn hafi viðhaft í samskiptum sínum við drenginn, hafi sært blygðunarsemi hans. Þá hafi maðurinn fengið kynferðislega fullnægju við þessi samskipti við drenginn.
Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða piltinum 200 þúsund krónur í skaðabætur auk 440 þúsund króna í málskostnað.