Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur fundið tvo 19 ára gamla pilta seka um ýmis brot, þar á meðal eignaspjöll með því að sprengja skoteld í garði raðhúss á Skagaströnd þar sem lögreglumaður býr.
Þá voru þeir einnig fundnir sekir um eignaspjöll en þeir köstuðu poka fullum af flöskum og dósum að húsi lögreglumannsins. Pokinn lenti m.a. á bíl sem skemmdist.
Piltarnir voru dæmdur fyrir ýmis önnur brot en þar var annar þeirra stórtækari. Hann var m.a. fundinn sekur um líkamsárás, ítrekaðan ölvunarakstur og akstur án ökuréttinda og fyrir að áreita fyrrnefndan lögreglumann. Pilturinn var dæmdur í 5 mánaða fangelsi, þar af 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi, og til að greiða lögreglustjóranum á Blönduósi á fjórða hundrað þúsund krónur í bætur. Hann var að auki sviptur ökuréttindum ævilangt.
Hinn pilturinn var dæmdur í 350 þúsund króna sekt, sviptur ökuréttindum í 18 mánuði og til að greiða lögreglustjóranum á Blönduósi jafn háar bætur og félagi hans.