Það var óvenjuleg sjón sem blasti við Hólmurum þegar birta tók í morgun. Síldarbáturinn Áskell EA 48 var kominn inn á Breiðasund fyrir innan Hvítabjarnarey og var farinn að kasta á síld. Það hefur aldrei gerst áður, fullyrða gamlar Hólmarar, að hringnót hafa verið kastað svona innarlega í Breiðafirði.
Að sögn Sveins Ísakssonar, skipstjóra á Áskeli EA, fékk hann að vita um að mikil síld væri inn á Breiðasundi og ákvað að kanna málið nánar, þar sem minna er orðið um síldina í Grundarfirði. Hann kastaði þrisvar og fékk skammtinn sinn, um 600 tonn. Um var að ræða fallega síld sem öll fer í vinnslu. Veiðin tók um þrjá tíma.
Áskell EA siglir nú á móti Hákoni EA og verður síldinni dælt yfir í Hákon þar sem hún verður flökuð og fryst. Sveinn segir að töluvert sé um síld á Breiðasund en hann fékk allan aflann úr sömu torfunni.
Til að komast inn á Breiðasund þurfti Sveinn að fá lóðs til að vísa sér leiðina því á siglingaleið eru eyjar og sker. „Það er alveg ný staða að þurfa lóðs til að koast á miðin,” sagði Sveinn skipsstjóri.