Veik börn send í leikskólann

„Það er voðalega mikið um pestir á leikskólum og í skólum og menn hafa kennt því um að foreldrar hafi lítinn tíma til að hafa þau heima," segir Haraldur Briem sóttvarnarlæknir en tekur fram að hann hafi engar fastar sannanir fyrir þessu.

Í grein sem birtist í sænska dagblaðinu Aftonbladet á dögunum kemur fram sænskir foreldrar séu farnir að senda börnin veik í leikskólann til þess mæta auknum kröfum í starfi. Sérstaklega á þetta við um foreldra sem eru að skapa sér starfsframa og mega ekki við því að missa af degi í starfi segir í blaðinu. Þar kemur einnig fram að tíðni smitsjúkdóma hafi aukist í kjölfarið.

Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, segir að vissulega hafi hún heyrt af því sem sænska dagblaðið segir frá þó hún vilji ekki fullyrða neitt um að þetta sé þannig hér á landi. „Auðvitað bitnar þessi hraði og þessi streita í samfélaginu á börnunum og foreldrarnir hafa svo sem enga stjórn á því," segir Björg sem telur að það vanti yfirhöfuð einhverja fjölskyldustefnu í samfélaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert