Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í 15 mánaða fangelsi fyrir nauðgun, en maðurinn var talinn hafa notfært sér að kona, sem hann hafði samræði við, gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða konunni 800 þúsund krónur í bætur.
Nauðgunin var kærð til lögreglu í maí á síðasta ári. Konan sagði að hún hefði verið á veitingastað en orðið veik af áfengisdrykkju og farið að æla. Maðurinn hefði fylgt sér þaðan í heimahús og haft þar samfarir við hana. Konan sagðist ekki hafa getað veitt mótspyrnu þar sem hún hafi verið alveg máttlaus og ekki getað sagt neitt. Konan hafði enga skýringu á máttleysi sínu.
Maðurinn neitaði fyrst að hafa átt mök við konuna en breytti síðar framburði sínum og kannaðist við að hafa haft samfarir við konuna en sagði að hún hefði átt frumkvæðið.
Dómurinn segir að telja verði sannað, að konan hafi verið ölvuð umrædda nótt. Liggi ekkert annað fyrir en að ástand hennar, eftir að hún kom með manninum í íbúðina, veikindi og magnleysi, megi rekja til áfengisdrykkju hennar fyrr um kvöldið og um nóttina.
Þegar málavextir séu virtir verði að telja, að manninum hljóti að hafa verið ljóst, þegar hann hóf samfarir við konuna, að ástand hennar væri slíkt að hún gæti ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunarástands.