Áfengisneysla framhaldskólanema áhyggjuefni

Lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Ísland segir ofneyslu áfengis meðal íslenskra unglinga í framhaldsskólum vera mikið vandamál sem samfélagið verði að sporna við. Hún bendir á að tæplega 60% framhaldsskólanema á aldrinum 16-20 ára hafi verið hafa drukkin einu sinni eða oftar sl. 30 daga.

Helga Sif Friðjónsdóttir flutti erindi um þetta ráðstefnu um rannsóknir á hjúkrun, sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag og á morgun. Hún sagði í samtali við mbl.is að nauðsynlegt sé að taka á áfengis- og vímuefnaneyslu og ýmsum öðrum vandamálum sem unglingar glíma við, s.s. vandamál er varða geð- og kynheilbrigði.

Rannsókn Helgu byggir á gagnagrunni sem safnað var í íslenskum framhaldsskólum haustið 2004 og er í eigu Rannsókna og greiningar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að tíðni ofneyslu áfengis var 59,4% meðal þátttakenda. Þá var hægt að greina á milli þriggja ólíkra hópa í úrtakinu með tilliti til drykkjumynsturs.

Fyrsti hópurinn, eða um 50% af rúmlega 11.000 þátttakendum, varð tiltölulega sjaldan drukkinn, en drakk þá álíka oft bjór og léttvín.

Annar hópur samanstóð af 43% þátttakenda og var sá hópur í nokkuð mikilli áfengisneyslu. Ungmenni í þessum hóp drukku mun oftar bjór en fyrri hópurinn en tíðni léttvínsnotkunar hópanna var svipuð. Áfengisneysla seinni hópsins fór að mestu fram í partýum í heimahúsum og á vínveitingastöðum.

Þriðji hópurinn samanstóð af 7% þátttakenda þar sem tíðni ofneyslu áfengis var hæst í samanburði við hina hópana. Tíðni á neyslu bjór, léttvíni og landa var miklu hærri í þessum hópi samanborið við hina tvo hópana og fór áfengisneyslan fram í heimahúsum og á vínveitingastöðum sem og á skólaböllum.

Rannsóknin sýndi einnig að þriðji hópurinn, samanborinn við hina hópana tvo, hafði fleiri einkenni andfélagslegrar hegðunar sem bendir til þess að ungmenni í þessum hópi séu komin í alvarlegan sálfélagslegan vanda samhliða mikilli ofneyslu áfengis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka