Björk Vilhelmsdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir að ákvörðun hafi verið tekin í gær um að koma upp sambærilegri þjónustu við geðfatlaða í borginni og boðið hefur verið upp á á Akureyri. Ákveðið hefur verið að ráða verkefnisstjóra frá og með næstu áramótum til að vinna að þessu máli.
Á Akureyri hefur verið lögð áhersla á að veita þjónustu við geðfatlaða á einum stað í stað þess að fólk þurfi að ganga milli stofnana til að leita lausna.
Björk sagði í samtali við Morgunblaðið að borgin væri búin að vinna að þessu máli í nokkurn tíma og það væri ekki eftir neinu að bíða með að hrinda því í framkvæmd.