Borgarráð leggst gegn starfsemi nektarstaða

Meirihluti borgarráðs samþykkti í dag að leggjast gegn því, að rekstarfélög veitingastaðanna Bóhem, Club Óðar og Vegas, fái undanþágu til að reka nektarstaði. Borgarfulltrúar sjálfstæðismanna bentu á borgin kynni að verða skaðabótaskyld vegna þessarar ákvörðunar.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og F-lista létu bóka, að neikvæð umsögn borgarráðs til lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins sé liður í áframhaldandi baráttu borgaryfirvalda gegn klámvæðingu og vændi í samræmi við Mannréttindastefnu borgarinnar.

Vísað er til þess, að í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sé lagt bann við að bjóða upp á nektarsýningar á veitingastöðum eða gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru, nema að fengin sé sérstök undanþága, en í rekstrarleyfisumsóknum hinna umræddu staða sé einmitt sótt um slíka undanþágu. Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og F-lista séu ekki tilbúnir að veita þá undanþágu, enda bryti það í bága við samþykkta stefnumörkun borgarinnar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks létu bóka, að þeir hefðu skömm á nektardansstöðum í Reykjavík og þeim svip sem þeir setji á umhverfi sitt. Ekki sé hinsvegar hægt að horfa fram hjá því, að þessi starfsemi sé heimil samkvæmt lögum og á meðan svo sé leiki mikill vafi á því að borgarráðsmenn geti tekið ákvarðanir með þeim hætti sem lagt er til í þessu máli. Lögfræðingar borgarinnar hafi bent á að slík ákvarðanataka gæti bakað borginni skaðabótaskyldu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert