Búið er að slökkva eldinn í húsi við höfnina í Vestmannaeyjum þar sem veitingastaðurinn Kaffi Kró er til húsa. Í ljós kom, að eldurinn logaði á lofti í geymslu í öðrum enda hússins en komst hvorki í veiðarfærageymslu, sem er í miðju húsinu, né í veitingastaðinn, sem slapp alveg við skemmdir. Grunur er um íkveikju en ekkert rafmagn var í geymslunni.
Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum logaði mikill eldur upp þaki hússins þegar að var komið. Slökkvilið var mjög fljótt á staðinn og tókst strax að ná tökum á eldinum. Segir lögreglan að þak hússins virðist ónýtt en tjón að öðru leyti ótrúlega lítið að sjá. Eldveggir í húsinu gerðu sitt gagn.
Í geymslunni var rúta og annar bíll en ekki er að sjá að bílarnir hafi skemmst að sögn lögreglu.
Þetta er þriðji bruninn á skömmum tíma í Vestmannaeyjum en nýlega hefur slökkvililiðið þurft að slökkva elda bæði við Hilmisgötu og Vesturveg.