Lögmaður Bóhem ósáttur við ákvörðun borgarráðs

Brynjar Níelsson, lögmaður nektarstaðarins Bóhem, gagnrýnir samþykkt meirihluta borgarráðs um að leggjast gegn því að rekstrarfélög þriggja nektarstaða fái undanþágu til að reka nektarstaði. Brynjar segir það ekki hlutverk borgarinnar í þessu tilfelli að segja til um hvort tiltekin atvinnustarfsemi sé slæm eða góð.

Brynjar segir að reglur segi til um að þótt nektardans sé bannaður í Reykjavík, þá sé heimild í lögum til staðar til að veita undanþágur frá þessu, að uppfylltum vissum skilyrðum. Einn umsagnaraðila sé borgarráð, sem eigi að segja til um það hvort starfsemin falli að skipulagi á svæðinu.

Brynjar segir að þótt hver og einn hafi rétt á því að hafa skoðanir, þá sé ótækt að borgarráð taki ákvarðanir í þessu tilfelli út frá pólitískri hugmyndafræði, enda sé það ekki hlutverk þess, heldur aðeins að meta hvort starfsemin falli að skipulagi.

Segir Brynjar að ljóst sé að þessu verði ekki unað, enda sé augljóslega um ólöglega ákvörðun að ræða. Ekki hafi hins vegar verið teknar ákvarðanir um framhaldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka