Ragnar Kjartansson sýnir á Feneyjatvíæringnum

Ragnar Kjartansson.
Ragnar Kjartansson. mbl.is/Ásdís

Listamaðurinn Ragnar Kjartansson hefur verið valinn til að sýna fyrir Íslands hönd á mynd­listartvíæringnum í Feneyjum árið 2009, sem þá verður haldinn í 53. sinn. Þangað senda þjóðir heims fulltrúa sína og þar er teflt fram því besta og nýstárlegasta sem völ þykir á hverju sinni.

Ragnar Kjartansson fæddist 1976 og útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2001. Hann hefur haldið tólf einka­sýningar í fimm löndum og tekið þátt í nær þrjátíu samsýningum víða um heim. Hann hefur fengist við ýmsa miðla, svo sem myndbönd, innsetningar, skúlptúr og málverk, en lítur fyrst og fremst á sig sem gjörningalistamann og fer ekki í felur með að þar njóti hann uppeldisins hjá foreldrum sínum, Guðrúnu Ásmundsdóttur leikkonu og Kjartani Ragnarssyni leikara og leikstjóra. Jafnframt myndlistinni hefur Ragnar átt feril í tónlist, nú síðustu árin með hljómsveitinni Trabant.

Ragnar er yngsti listamaður sem Íslendingar hafa valið á Tvíæringinn. Val á fulltrúa Íslendinga var í höndum fagráðs Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, en fagráðið skipa: Christian Schoen, forstöðumaður Kynningarmiðstöðvarinnar, Hafþór Yngvason, forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur og Rúrí, myndlistarmaður. Gestir nefndarinnar við valið voru Halldór Björn Runólfsson, forstöðu­maður Listasafns Íslands, og Kristján Steingrímur Jónsson, deildarstjóri myndlistardeildar Listaháskóla Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert