Listamaðurinn Ragnar Kjartansson hefur verið valinn til að sýna fyrir Íslands hönd á myndlistartvíæringnum í Feneyjum árið 2009, sem þá verður haldinn í 53. sinn. Þangað senda þjóðir heims fulltrúa sína og þar er teflt fram því besta og nýstárlegasta sem völ þykir á hverju sinni.
Ragnar Kjartansson fæddist 1976 og útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2001. Hann hefur haldið tólf einkasýningar í fimm löndum og tekið þátt í nær þrjátíu samsýningum víða um heim. Hann hefur fengist við ýmsa miðla, svo sem myndbönd, innsetningar, skúlptúr og málverk, en lítur fyrst og fremst á sig sem gjörningalistamann og fer ekki í felur með að þar njóti hann uppeldisins hjá foreldrum sínum, Guðrúnu Ásmundsdóttur leikkonu og Kjartani Ragnarssyni leikara og leikstjóra. Jafnframt myndlistinni hefur Ragnar átt feril í tónlist, nú síðustu árin með hljómsveitinni Trabant.
Ragnar er yngsti listamaður sem Íslendingar hafa valið á Tvíæringinn. Val á fulltrúa Íslendinga var í höndum fagráðs Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, en fagráðið skipa: Christian Schoen, forstöðumaður Kynningarmiðstöðvarinnar, Hafþór Yngvason, forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur og Rúrí, myndlistarmaður. Gestir nefndarinnar við valið voru Halldór Björn Runólfsson, forstöðumaður Listasafns Íslands, og Kristján Steingrímur Jónsson, deildarstjóri myndlistardeildar Listaháskóla Íslands.