Reykjavík Energy Invest (REI) og Geysir Green Energy (GGE) hafa dregið sig út úr tilboði í 40 prósenta hlut filippseyska ríkisins í stærsta jarðvarmafyrirtæki Filippseyja, PNOC-EDC. Samkvæmt heimildum 24 stunda var það sameiginleg ákvörðun stjórna beggja félaganna að draga sig út úr verkefninu vegna þess að þeim þótti tilboðið, 84 milljarðar króna, vera óeðlilega hátt.
REI og GGE buðu í hlutinn ásamt filippseyska orkufyrirtækinu First Gen. Hlutur íslensku félaganna í tilboðinu var 40 prósent en First Gen 60 prósent. Hópurinn, sem kallaði sig Red Vulcan, átti langhæsta tilboðið. Næsthæsta tilboðið var um 70 milljarðar króna. Ákvörðun um að hvaða tilboði verður gengið, verður tekin í dag.