Maður á fimmtugsaldri var í gærkvöldi handtekinn í austurhluta Reykjavíkur fyrir þann óvenjulega glæp að hafa stundað símaónæði. Hann mun hafa stundað þetta af og til í marga mánuði en í gær hringdi hann yfir hundrað símtöl í neyðarlínuna og truflaði starfsfólk og teppti símalínur. Að sögn lögreglunnar var maðurinn ölvaður. Símtölin voru rakin heim til mannsins sem mætti lögreglu fyrir utan heimili sitt með óhljóðum og látum.
Maðurinn dvelur nú í fangageymslum lögreglunnar og verður að sögn yfirheyrður þegar runnið er af honum.
ein tilraun var gerð til innbrots á hárgreiðslustofu í Mosfellsbæ um klukkan eitt í nótt. Vitni sem hringdi í lögregluna sá tvo unga menn vera að spenna upp dyrnar á hárgreiðslustofunni en styggð komst að þeim og voru þeir horfnir á braut er lögregluna bar að garði. Lögreglan hefur ekki haft hendur í hári þeirra.
Innbrot var framið í Bónus Vídeó í Lóuhólum í Reykjavík um klukkan 3 í nótt. Lögreglan hefur fengið góða lýsingu vitnis á ungum manni sem lögreglan telur sig vita hver er.
Þjófurinn hafði á brott með sér töluvert magn af símkortum fyrir farsíma og tóbaki.