Foreldrar sem eru í öngum sínum þegar börn þeirra skrópa í skóla vegna tölvuleikjanotkunar hringja í Samtök áhugafólks um spilafíkn til að leita ráða.
„Á þessu ári hef ég talað við 20 fjölskyldur vegna of mikillar tölvuleikjanotkunar barna og unglinga. Foreldrar segja að börnin spili í margar klukkustundir á dag og í sumum tilfellum setjast þau fyrir framan tölvuna í stað þess að fara í skólann. Sum eru í tölvuleikjum langt fram eftir nóttu og mæta þess vegna ekki í skólann," segir Júlía Olsen, starfsmaður samtakanna.
Þegar samtökin voru stofnuð fyrir þremur árum var ekkert hringt vegna vanda sem tengdist tölvuleikjum, að sögn Júlíu. „Foreldrar eru ráðþrota. Ef þeir takmarka tölvuleikjanotkun heima fara börnin og unglingarnir heim til félaganna og spila þar. Þetta eru jafnvel mjög ung börn. Sum 7 ára börn vilja vera í tölvuleikjum allan daginn," greinir Júlía frá.