Vegagerðin vill fækka ristarhliðum

Fram kom á fundi fulltrúa Vegagerðarinnar með landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar fyrir skömmu, að Vegagerðin vill fækka ristarhliðum við safn,- tengi- og styrkvegi, en girða frekar meðfram vegum. Fjárveitingar fáist ekki til að girða beggja vegna vegar og setja ristarhlið að auki.

Kristján Magnússon á Snorrastöðum, formaður nefndarinnar, segir við fréttavef Skessuhorns, að dæmi um þessar framkvæmdir væri svokallaður Ferjubakkavegur sem nýlega hefði verið byggður upp. Þar hefði verið girt beggja vegna en ristarhliðið tekið í burtu, þar sem vegurinn mætir hringveginum. Vegagerðarmenn teldu að brýnna væri að girða beggja vegna en setja ristarhlið og girða aðeins annars vegar.

Kristján sagði ennfremur að vakin hefði verið athygli á því á fundinum, að fjárveitingar til undirganga væru langt undir því sem vera þyrfti þótt starfsmenn Vegagerðarinnar gerðu allt hvað þeir gætu til að breyta því. Sem dæmi um undirgöng sem heppnast hafi vel séu göng undir hringveginn við Fiskilæk í Hvalfjarðarsveit. Þar sæist varla kind á vegi eftir að þau komu til.

Hátt hlutfall malarvega er í Borgarbyggð og segir Skessuhorn, að Vegagerðarmenn hafi á fundinum viðurkennt, að alltof lítið fjámagn kæmi til viðhalds þeirra og sama gilti um heflun. Þar væri raðað niður eftir brýnni nauðsyn.

Kristján sagði nefndarmenn sammála um að íbúar, sveitarstjórnarmenn og starfsmenn Vegagerðarinnar þyrftu að taka saman höndum um að fækka malarvegunum. Fjöldi þeirra kæmi meðal annars niður á þeim sem væru að byggja upp ferðaþjónustu því fáir vilja hristast eftir holóttum, rykugum malarvegi þegar annað betra gæfist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert