Færst hefur í aukana að fólk afþakki hefðbundnar gjafir á tyllidögum og biðji vini og vandamenn frekar að leggja góðu málefni lið. Til að bregðast við þessari eftirspurn hafa góðgerðasamtök hafið sölu á ýmiss konar gjafakortum.
„Helst er þetta í tengslum við stórafmæli og brúðkaupsafmæli, en eitthvað er líka um brúðkaup," segir Lydía Geirsdóttir, verkefnisstjóri Hjálparstarfs kirkjunnar. „Við höfum gjafabréfin að erlendri fyrirmynd, en göngum skrefinu lengra en kollegar okkar erlendis og bjóðum fólki eitthvað haldbært." Í gegnum Hjálparstarf kirkjunnar er til dæmis hægt að láta grafa einn vatnsbrunn í Afríku fyrir 150 þúsund króna framlag, eða gefa hænuunga og hænuegg til ræktunar fyrir 2.000 krónur. „Einhverra hluta vegna eru geiturnar samt langvinsælastar hjá okkur, bæði hjá þeim sem gefa og þeim sem njóta," segir Lydía.
Allt að 120.000 krónur hafa runnið til Hjálparstarfs kirkjunnar úr einni veislu. Í Malaví dugar sú upphæð til að setja á fót banka með 50 geita hjörð. Gripunum er úthlutað til þeirra sem á þurfa að halda, þannig að geitabankinn getur unnið heilu þorpi gagn.