Það er ekki á allra færi að skipta um hest í miðri á. Það hafa hjónin Loftur Hreinsson og Ísafold Jökulsdóttir og börn þeirra tvö þó gert með miklum sóma, líkt og lesendur Morgunblaðsins hafa fylgst með að undanförnu í greinaflokknum Út í loftið. Fyrir sex vikum létu þau sér loftslagsbreytingar af mannavöldum í léttu rúmi liggja en örlögin höguðu því þannig að þau ákváðu að snúa við blaðinu og taka upp vistvæna lífshætti.
Vilji maður breyta einhverju er alltaf gott að byrja á sjálfum sér og við höfum fylgst með fjölskyldunni taka til í eigin ranni. Hún hefur sagt umbúðamenningunni stríð á hendur, bundið Sorpskrímslið á höndum og fótum, selt bensínhákinn og skorið áhrif framkvæmda á loftslagið við nögl, eins og kostur er. Þegar við segjum skilið við Loft og Ísafold á sunnudaginn hafa þau brautskráðst með láði úr verkefninu Vistvernd í verki og framtíðin blasir við þeim, græn og væn. En við skulum þó muna með þeim að enn er verk að vinna. Enginn verður fullnuma í þessum fræðum. Leggjum áfram við hlustir – jörðin kallar.