Forsetinn ætlaði einnig að hafna breyttum fjölmiðlalögum

Sigmundur Ernir Rúnarsson og Guðni Ágústsson sjást hér fagna útgáfu …
Sigmundur Ernir Rúnarsson og Guðni Ágústsson sjást hér fagna útgáfu bókarinnar í útgáfusamkvæmi sem fram fór í bókabúð Máls og menningar nú síðdegis. mbl.is/Sverrir

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir frá því í nýrri ævisögu, að hann hafi sumarið 2004 verið sendur fyrir hönd ráðherra flokksins á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, til að kanna hug forsetans til nýs og endurbætts fjölmiðlafrumvarps. Forsetinn hafði um vorið neitað að staðfesta fjölmiðlalög, sem Alþingi samþykkti.

Í bókinni, sem Sigmundur Ernir Rúnarsson skráir, segir m.a. að Guðna hafi þótt þeir Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, byrja að fjarlægjast hvor annan vegna fjölmiðlamálsins og kaldara andrúmsloft verði á milli þeirra. Guðni hafi merkt það á Halldóri, að Davíð hafi gengið fram af honum og fjandskapur forsætisráðherrans í garð forsetans væri kominn út yfir öll mörk og farinn að skaða samstarfsflokkinn í ríkisstjórn.

Í bókinni segir, að að almennt hafi verið vitað í flokknum, að kært væri á milli Guðna og Ólafs Ragnars enda séu þeir gamlir baráttufélagar úr ungliðahreyfingu flokksins frá ólgutíma Möðruvellinga og þar fyrir utan sé Guðni einn af fáum þingmönnum flokksins sem hafi stutt Ólaf Ragnar opinberlega á forsetastóli. Guðni þótti því rétti maðurinn í þessa friðarför út á Álftanes.

„Guðni heldur á fund forsetans undir hádegi í hásumri. Það er mugga úti en þó hlýtt. Honum er vel tekið. Á borðum er dýrindis lambasteik. Hann greinir það þó á forsetanum að hann er þreyttur. Það er greinilegt að átök síðustu vikna hafa tekið mjög á hann og svo virðist sem glettnin sé horfin úr ásjónu þessa gamla áhlaupsmanns í íslenskri þjóðmálaumræðu. Hann virðist miður sín og líður bersýnilega illa. Guðni þreifar því varlega á forsetanum en er samt í mun að komast að því hvaða hug hann beri til nýja fjölmiðlafrumvarpsins. Svarið er afdráttarlaust. Forsetinn gefur Guðna fastlega til kynna að hann muni hafna nýju lögunum rétt eins og þeim fyrri. Hann verði að vera samkvæmur sjálfum sér. Ólafur Ragnar gefur það jafnframt til kynna í þessu samtali þeirra Guðna að átökin við Sjálfstæðisflokkinn snúist ekki aðeins um þetta eina frumvarp heldur og ekki síður um framtíð forsetaembættisins. Átökin síðustu vikur varði ekki aðeins sinn persónulega heiður. Meginatriðið sé að verja embættið, frelsi þess og stöðu á ögurstundu," segir í bókinni.

Guðni sagði ráðherrum í flokki sínum hver afstaða forsetans væri og þeir komust að þeirri niðurstöðu, að best væri að leggja frumvarpsdrögin til hliðar og reyna ekki frekar á flokkinn, fólkið og forsetann í þessu máli.

 Guðna var einnig falið að skýra Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, frá fundinum og afstöðu framsóknarmanna. Davíð er sagður hafa  brugðist reiður við þessum tíðindum en Guðni sagt honum, að Davíð verði að gera sér grein fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir væru búnir að tapa orrustunni. Við það hafi sljákkað heldur í Davíð en hann  hafi  samt enn verið hneykslaður á samstarfsflokknum sínum og á því að Framsókn væri að míga á sig af hræðslu. „Þið eruð verri en kratarnir, algerlega kjarklausir," bætir Davíð svo við.

„Daginn eftir veikist Davíð Oddsson og er lagður inn á sjúkrahús og glímir næstu mánuði við erfið veikindi," segir síðan í bókinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert