Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon, sem sitja í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, hafa sent Bryndísi Hlöðversdóttur, stjórnarformanni Orkuveitunnar bréf þar sem farið er fram á að haldinn verði stjórnarfundur hið fyrsta, jafnvel í dag eða um helgina. Til stóð að halda stjórnar- og eigendafund í OR í dag en honum hefur verið frestað um viku.
Júlíus Vífill sagði við mbl.is, að stjórnarformanni hefði verið falið að ræða við hagsmunaaðila um stöðu og framhald mála Reykjavik Energy Invest.
„Það er nú orðið æði langt síðan en það hafa engar upplýsingar verið lagðar á borð Orkuveitu Reykjavíkur um það hvernig þær viðræður hafa gengið. Hins vegar lesum við um það í fjölmiðlum, að það sé fjöldi fólks kominn með einhverjar tillögur um úrvinnslu þessara mála. Við teljum, að þetta sé dónaskapur í garð okkar, sem sitjum í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og viljum fá þessar upplýsingar upp á borðið og ræða um þær í stjórn Orkuveitunnar, sem er móðurfélag REI," sagði Júlíus Vífill.
Þeir Júlíus Vífill og Kjartan sendu bréf í dag til stjórnarformanns og annarra stjórnarmanna Orkuveitunnar og forstjóra fyrirtækisins þar sem farið er fram á fund í stjórninni. „Okkur finnst óeðliegt að það sé verið að fresta fundum til úrvinnslu mála, sem virðast vera unnin af mikilli nákvæmni og í samvinnu við ýmsa aðra en þá, sem bera ábyrgð og skyldur sem stjórnarmenn," sagði Júlíus Vífill.