Úrsmiðafélag Íslands afhenti í dag Fjöltækniskólanum nýuppgerða turnklukku Stýrimannaskólans til varðveislu og notkunar. Innflytjendasamband Úrsmiðafélags Íslands gaf Sjómannaskólanum umrædda klukku árið 1946. Klukkan var staðsett í turni skólabyggingarinnar allt þar til hún var tekin niður síðastliðið ár þegar ráðist var í mikið viðhald á byggingu Stýrimannaskólans.
Þegar klukkan var tekin niður kom í ljós að klukkuskífur turnklukkunnar og hjólaverk þeim tengdum var illa farið af sliti og tæringu, einnig var komið að löngu tímabæru viðhaldi á klukkuverkinu sjálfu. Ákveðið var að endurnýja vísana og kaupa nýtt rafeindadrifið klukkuverk til að leysa gömlu klukkuna af hólmi.
Einlægur vilji kom fram hjá félagsmönnum Úrsmiðafélags Íslands að gera upp og varðveita gamla klukkuverkið. Skólastjóri Fjöltækniskólans lagði til að staðsetja hana í anddyri skólans þar sem klukkan yrði mjög sýnileg bæði gestum og gangandi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra veitti klukkunni viðtöku fyrir hönd skólans.