Hjá flestum sem missa tökin á tölvuleikjanotkun sinni er um undirliggjandi vanda að ræða, eins og til dæmis einangrun, félagsfælni eða depurð. Þetta segir Björn Harðarson sálfræðingur sem hefur um nokkurra ára skeið fylgst með umræðu um þessi mál og gefið foreldrum ráð. Samkvæmt frásögn starfsmanns Samtaka áhugafólks um spilafíkn hafa foreldrar greint frá því að börn skrópi í skóla vegna tölvuleikjanotkunar.
,,Vandinn hefur aukist með samskiptahluta Netsins. Það er sérstaklega í svokölluðum fjölspilunarleikjum sem fólk missir tökin. Í venjulegum playstation-leikjum vistar það leiki. Í fjölspilunarleikjum er fólk að spila eða keppa við aðra og missir af einhverju ef það slekkur á tölvunni. Þess vegna reynist það stundum erfitt," greinir Björn frá. Hann segir að komast þurfi að rót vandans en samtímis þurfi að takmarka tölvuleikjanotkunina. ,,Við byrjum á að leiðbeina foreldrum um hvernig á að gera það." En fullorðnir eiga líka í vanda. Björn kveðst vita dæmi þess að foreldrar hafi ekki getað vaknað til að sinna börnum sínum eftir að hafa verið á spjallrás fram eftir nóttu.