Íslendingar komast ekki hátt á lista yfir framleiðni á hverja unna klukkustund. Samkvæmt nýbirtri rannsókn hagvaxtar- og þróunarseturs Groningen-háskóla í Hollandi er Ísland í átjánda sæti á lista yfir lönd með mesta verga landsframleiðslu (VLF) miðað við unna klukkustund á árinu 2006. Samkvæmt nýlegri skýrslu OECD er Ísland hins vegar í 5. sæti yfir lönd með mesta VLF á mann.
Rannsóknirnar sýna að Íslendingar vinna töluvert meira en margar þær þjóðir sem við berum okkur gjarnan saman við, án þess að framleiðslan aukist að sama skapi. Í ritgerðinni Evrópa: Minni vinna, meiri vöxtur segir Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, VLF á vinnustund vera mun hentugri mælikvarða á hag þjóðar en VLF á mann. Enda mælir hinn fyrrnefndi hvað einstaklingar þurfa að leggja á sig til að eiga fyrir tilteknum gæðum, og „flestir launþegar, mættu þeir ráða því sjálfir, kysu að fjölga tómstundum sínum og fækka vinnustundum við gefnum tekjum."