Felld hefur verið úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 21. september sl. um tímabundna sviptingu rekstrarleyfis veitingastaðarins Strawberries. Þetta kemur fram í úrskurði dómsmálaráðuneytisins. Þar segir að lögreglustjóri hafi ekki látið uppi gagnvart rekstraraðilum hvaða úrbætur væru nauðsynlegar til að staðurinn héldi leyfinu; þannig gafst þeim ekki tækifæri til að gæta mikilvægra hagsmuna sinna áður en ákvörðun var tekin um leyfissviptingu.
Snemma í ágústmánuði tók lögreglustjóri ákvörðun um að loka Strawberries sökum þess að þar færi fram starfsemi sem ekki samræmdist útgefnu leyfi staðarins. Var sú ákvörðun m.a. byggð á því að nektardans fór fram í básum í kjallara staðarins. Var rekstraraðilum tilkynnt að til athugunar væri að svipta staðinn tímabundið leyfi og gefinn frestur til að bæta úr annmörkum.
Rekstraraðilar skutu ákvörðun lögreglustjóra til dómsmálaráðuneytis sem staðfesti hana 31. ágúst sl. Í kjölfarið sendi lögmaður Strawberries tölvubréf til lögreglustjóra þar sem útlistað var hvaða breytingar yrðu gerðar. Þar segir m.a.: „Í fyrsta lagi hafa verið tekin niður öll skilrúm í kjallara hússins þannig að engin lokuð svæði eru inni á veitingastaðnum. Í öðru lagi hafa verið gefin skýr fyrirmæli um að „nekt“ í hvaða mynd sem er sé algjörlega óheimil á veitingastaðnum.“ Einnig að settar yrðu upp öryggismyndavélar og lögreglu boðið að skoða upptökur úr þeim hvenær sem væri, án úrskurðar. Lögreglustjóri svaraði bréfinu á þá leið að til skoðunar væri að svipta staðinn rekstrarleyfi og gaf frest til 14. september til að bæta úr annmörkum.
Áður en sá frestur rann út sendi lögmaður veitingastaðarins á nýjan leik tölvubréf til lögreglustjóra þar sem breytingarnar voru á nýjan leik taldar upp og skýrt á hvaða hátt starfsemin myndi fara fram í framtíðinni. „Aðaláhersla á staðnum verður sala áfengis. […] Sala áfengis fer fram af starfsstúlkum sem eru fullklæddar.“
Lögreglustjóri tók engu að síður þá ákvörðun að svipta staðinn rekstrarleyfi til 60 daga. Í ákvörðun hans segir m.a.: „Með vísun til þess að engin frekari sjónarmið hafi borist frá yður og engar upplýsingar um úrbætur […] sem þér hyggist grípa til í því skyni að starfsemi staðarins verði eftirleiðis hagað í fullu samræmi við útgefið leyfi, er það ákvörðun embættisins að svipta yður rekstrarleyfi staðarins.“
Ákvörðun lögreglustjóra var skotið til dómsmálaráðuneytis sem óskaði eftir öllum gögnum málsins. Í umsögn frá lögreglustjóra er áréttað að í tölvubréfunum hafi ekki komið fram neinar skýringar eða vilyrði um úrbætur sem unnt væri að meta fullnægjandi. Taldi lögreglustjóri m.a. ekki auðséð hvort sömu starfsstúlkur myndu starfa áfram, né hafði hann fengið svör við því hvort sami verðlisti yrði á staðnum eða hvort hann yrði viðlíka og á öðrum krám „þar sem boðið er upp á öl, sterkt áfengi og léttvín á mun lægra verði“.
Dómsmálaráðuneytið féllst ekki á sjónarmið lögreglustjóra að ekki hefðu komið fram upplýsingar um úrbætur og tók fram að lögreglustjóri hefði ekki leiðbeint rekstraraðilum um hvaða úrbætur þyrfti að gera. Auk þess sem tekið var fram að verðlagning áfengis á veitingastöðum væri frjáls og félli utan starfssviðs lögreglustjóra.